31.8.2008 | 13:52
Níu ár í dag!
Í dag eru nákvæmlega 9 ár síðan að pabbi minn dó, hann lést úr krabbameini aðeins sextugur að aldri. Ég hugsa oft og iðulega til hans, hann var svo yndislegur og góður faðir, skrítið hvað allt getur breyst mikið þegar einn úr hópnum er kvaddur á braut, og er ekki lengur til staðar, einhver sem maður hittir jafnvel daglega og finnst það svo sjálfsagt. Jóhann minn var bara átta ára þegar afi hans dó, og hann varð svo sorgmæddur þegar hann fékk fréttirnar að til að lýsa tilfinningum sínum og segja hvað hann væri leiður, og hvað honum fannst lífið allt í einu tilgangslaust, þá ætlaði hann aldrei aftur að fá sér pizzu með pepperoni, þannig fengum við að vita hvernig honum leið. Þótt það séu liðin níu ár þá sakna ég hans ennþá og við tölum oft um hann, það er svo gott að geta rifjað upp atvik og góðar minningar, krakkarnir muna alltaf eftir þegar afi kom á glansandi mótorhjólinu í leðurgallanum í heimsókn, og þau fengu að fara smá hring aftaná, svo var hann ótrúlega stríðinn og skemmtilegur. Já svona er víst lífið og maður fær engu breytt, en í dag þá þakka ég fyrir að hafa átt svona góðan föður, og ég er líka þakklát fyrir að eiga Föður á himnum sem vakir yfir mér nótt sem dag.
Athugasemdir
Sæl kæra Bryndís.
Drottinn gaf og Drottinn tók, lofað veri nafn Drottins.
Ég man eftir þegar pabbi þinn dó. Það var mikill harmur og sumt sem gerðist eftir það á ég svolítið erfitt með að sætta mig við.
Pabbi þinn var flottur og ég sakna hans líka. Hann nýtur lífsins í hinni himnesku Jerúsalem.
Guð veri með þér Bryndís mín á þessum tímamótum og gefi þér styrk og kraft.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.8.2008 kl. 17:31
Rose Glitters
Rósa Aðalsteinsdóttir, 31.8.2008 kl. 17:33
Mikið er tíminn fljótur að líða. 9 ár síðan Villi dó. Hann var góður maður, skemmtilegur og mjög fínn í tauinu.
Hann gekk sko ekki í hverju sem er. Alltaf þegar maður hitti Villa þá var hann alltaf þannig að það var eins og
hann væri að fara í veislu, elegant og flottur. Ég hugsa oft til hans þó sérstaklega þegar Bryndís er að gera
eitthvað merkilegt og það er nú oft skal ég segja ykkur, svo ég tali nú ekki um barnabörnin hans.
Mikið held ég að afi hafi nú verið stoltur þegar Villi nafni hans útskrifaðist núna í vor. Hann hefði nú
verið ánægður með öll börnin sín, hvað þeim gegnur vel og hvað þau eru dugleg þrátt fyrir allt í þessu
blessaða lífi. Hann hefði verði stolltur með að vera orðin langaafi þegar hún India Karen kom í heiminn
í vor. Blessum minningu hans með því að muna eftir honum enda ekki hægt annað. Vera dugleg að segja bönunum
frá hve yndislega afa þau áttu, missir þeirra er svo mikill. ástarkveðja Hanna
Jóhanna Sigrún Jónsdóttir, 31.8.2008 kl. 18:28
Takk vinkonur
Rósa mín vá hvað Rósin er falleg!
Já Hanna mín pabbi hefði verið flottur langafi og stoltur af öllum áföngunum sem krakkarnir hafa náð!
Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 1.9.2008 kl. 00:25
Sæl mín kæra.
Þú átt skilið það besta og ekkert annað.
Guð veri með þér.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 1.9.2008 kl. 01:14
Það er svo sárt að missa ástvin
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 11:11
já það er svo skrýtið að hugsa til þess að það eru liðin 9 ár! ég bara trúi því ekki, finnst svo stutt síðan að ég hljóp í fangið á afa og hann sagði mér sögur af sér í afríku vera að berjast við ljón og dreka sem hann hefði sko farið létt með =) og ég trúði þessu öllu alveg hreint heilluð af afa =)
en hann var svo yndislegur og ég hugsa svo oft til hans. hvað hann myndi segja við hinu og þessu og hvað hann myndi ráðleggja mér . ég veit hann yrði stoltur af Háskólagöngu minni og það gleður mig enda læri ég ennþá á skrifborðstólnum sem hann gaf mér á sínum tíma. =)
ég elska hann svo mikið og hlakka til að fá að hitta hann á himnum og getað sagt honum hvað hefur drifið á daga mína =) ...og vonandi næ ég því líka að kaupa eitt stykki bens og get sagt honum það, sá yrði stoltur hehe =)
kisskiss elsku afi, blessuð sé minning þín
Karen Dögg (IP-tala skráð) 2.9.2008 kl. 15:24
Já þú þekkir það Birna, og ég dáist að því starfi sem þú ert að vinna í dag. Guð geymi þig!
Karen mín þú ert heilmikið lík afa þínum!
Bryndís Eva Vilhjálmsdóttir, 2.9.2008 kl. 20:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.